Ef maður þorir ekki að gera mistök þá lærir maður aldrei af þeim
Vilborg er stigahæsti leikmaður Njarðvíkinga
Körfuknattleikskonan Vilborg Jónsdóttir, sem leikur með 1. deildar liði Njarðvíkur, hefur verið að gera gríðarlega góða hluti með liðinu. Vilborg er stigahæst í liðinu og á einnig flestu fráköstin og stoðsendingarnar. Njarðvíkingar hafa staðið sig vel það sem af er tímabili og eru eins og staðan er nú í fjórða sæti deildarinnar. Í samtali við Víkurfréttir segist Vilborg hafa það á tilfinningunni að liðið sé á uppleið með hverjum leik.
„Frammistaða liðsins er búin að vera svolítið upp og niður en mér finnst ekki vanta viljann og dugnaðinn í að bæta hana með hverjum degi. Tímabilið er búið að ganga alveg ágætlega, við höfum verið svolítið klaufskar þegar kemur að því að klára leiki en aftur á móti þá finnst mér liðið vera á uppleið. Þegar ég lít á mína frammistöðu þá hugsa ég um það hvernig hún hjálpar liðinu til sigurs og það fer eiginlega bara eftir leikjum hversu sátt eða ósátt ég er með hana.“
Í síðustu viku mættu Njarðvíkingar B-liði Keflavíkur í Blue-höllinni og sigruðu en úrslit leiksins urðu 57:70. Aðspurð segir Vilborg það alltaf gaman að vinna leiki, sama gegn hvaða liði það sé, en þó sé það alltaf aðeins sætara að vinna Keflvíkinga á þeirra heimavelli.
Á milli leikja segir hún liðið æfa stíft. „Við æfum alla daga vikunnar og á milli leikja æfum við vel þangað til degi fyrir leik. Þá er það skotæfing og svo er farið yfir andstæðingana sem liggja fyrir hverju sinni.“ Aðspurð hver lykillinn að því að verða stiga-, frákasta- og stoðsendingahæst segir Vilborg þetta allt saman snúast um aukaæfingar og sjálfstraust. „Að þora að vera til. Ef maður þorir ekki að gera mistök þá lærir maður aldrei af þeim. Ég reyni líka að pæla ekki of mikið í þessum tölum af því á endanum eru þetta bara tölur.“
Njarðvíkingar munu mæta Grindavík B þann 18. febrúar í Njarðtaks-gryfjunni. Vilborg segist klár í þann leik. „Markmið tímabilsins er að gera betur en síðast, að verða betra lið og bæta einstaklingshæfileikana okkar. Ég myndi segja að markmið okkar sé líka að komast í „playoffs“ og vonandi gera betur þar heldur en við gerðum á síðasta tímabili. Svo er náttúrlega stærsta markmiðið að komast upp í Domino’s-deildina á endanum.“